Morgunblaðið

         13.12.2001

Hryggilegur ósigur Bandaríkjamanna 

 

GEORG W. Bush forseti innsiglaði ósigur Bandaríkjamanna, og reyndar allrar heimsbyggðarinnar, með því að bera á borð fyrir heiminn helber ósannindi í því stríði sem nú er háð við islam. Því að veröldinni er ógnað af enn einum ismanum, islamismanum, en ekki af "einhverjum" hryðjuverkamönnum. Er það ekki kaldhæðni að Osama bin Laden hefur sagt sannleikann um stöðu heimsmála en ekki Bush? Þó segist Bush vera endurfæddur kristinn maður. Sumar athafnir hans undirstrika einmitt að svo sé, t. d. aðgerðir hans til sporna gegn fóstureyðingum, þökk sé Guði. En "já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda." (Matt. 5:33, 37.)

Bin Laden talar sannleikann þegar hann segir: "Islam á í stríði við gyðinga og kristna menn." Í hverju felst blekkingin hjá Bush? Í orðum hans: "Við eigum ekki í stríð við islam, islam eru friðsöm trúarbrögð." Þessi orð eru ósannindi.

Bin Laden er einfaldlega heitttrúaður múslimi. Það heilaga stríð (jihad) sem hann háir gegn gyðingum og kristnum mönnum er ekki annað en það sem gefin eru fyrirmæli um í Kóraninum, trúarriti múhameðstrúarmanna. Samkvæmt Kóraninum eru allir trúaðir múslimar í óendanlegu stríði við allar þjóðir og einstaklinga sem ekki eru múslimar. Alls staðar þar sem islam hefur ekki "tekið yfir” er vígvöllur þeirra. Berjast skal þar til sigur hefur unnist.

 Um frið má alls ekki semja (nema auðvitað til bráðabirgða fari múslimar halloka, en þegar úr rætist skal svíkja alla friðarsáttmála við "ekki múslima").

Osama bin Laden og Jasser Arafat eru því báðir góðir og sannir múslimar, enda fylgja þeir dyggilega boði Múhameðs spámanns í hatursfullri afstöðu til allra annarra en sannra múslima. Skilaboðin frá Allah til múslima eru: "Drepið og verið drepnir." Framfylgi þeir þessu af heilum hug tryggir það þeim vist í "Paradís". Þess vegna einskorðast vígvöllurinn ekki við Ísrael. En Ísrael er flöskuháls sem hindrar áframhaldandi framrás islams í heiminum.

Flestum múslimum er vorkunn vegna þess að þeir hafa ekki fengið að kynnast sönnum kristindómi, jafnvel ekki þeir sem á Vesturlöndum búa, því að kristindómur okkar flestra Vesturlandabúa er lítið annað en nafnið tómt.

Sumir múslimar eru það líka bara að nafninu til og þegar þeir eiga í hlut ættum við að þakka Guði fyrir slælega eftirfylgd þeirra við bókstaf Kóransins, því að það leiðir til þess að þeir "nenna" ekki að standa í hryðjuverkum og drápum á saklausu fólki. Á hinn bóginn má öllum vera augljós sá mikli stuðningur sem bin Laden nýtur meðal múslima í framgöngu sinni gegn Bandaríkjunum. Þess vegna stendur ótölulegur fjöldi sanntrúaðra múslima gegn friði í heiminum enda eru "islam ekki friðsöm trúarbrögð". 

GUÐMUNDUR ÖRN RAGNARSSON

Höfundur er prestur.